Gönguferðir - Menningarferðir - Siglingar

Fjöll og strendur á Amalfi

8 dagar/7 nætur
21-28. apríl 2024 / 15-22. september 2024 /  6-13. október 2024

Fararstjóri: Sigurbjörg Magnúsdóttir & Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir (6-13. október)

Amalfiströndin er ein af þekktari svæðum Ítalíu og ekki síst fyrir einstaka náttúrufegurð sem einkennist af stórkostlegum klettum, kristaltærum sjó, gróskumikilli náttúru og heillandi strandbæjum. Að ganga um perlur Amalfi lætur engan ósnortinn og þessa ferð ættu náttúruunnendur ekki að láta fram hjá sér fara. Gönguleiðirmar eru eins misjafnar og þær eru margar, allt frá auðveldum stígum til krefjandi fjallgöngu. Í ferðinni munum við ganga eina af þekktustu og fallegustu gönguleiðum Amalfi sem kallast Stígur Guðanna eða Sentiero degli Dei á ítölsku, sem býður upp á stórkostlegt útsýni í allar áttir og endar í þorpinu Positano sem er einn þekktasti bær Amalfi strandarinnar. Hver gönguleið býður upp á eitthvað einstakt til að mynda heimsækjum við heillandi þorp, fáum að bragða á dýrindis matargerð, kynnumst menningu, sögu og upplifum sannkallaða ítalska töfra. Í ferðinni munum við upplifa stórkostlegt sjávarútsýni út á Miðjarðarhafið, heimsækja sögulega staði þar sem gamlir varðturnar, fornar rústir og kirkjur verða á vegi okkar auk þess sem fjölskrúðugt plöntu og dýralíf bíður við hvert fótmál. Besti tíminn veðurfarslega til að heimsækja þessa perlu er að vori þegar hitinn er ekki of mikill og gróður- og dýralíf er vakna eftir veturinn eða að hausti eftir mestu sumarhitana.

Skoða framboð og bóka

21-28. apríl 2024

Bóka >>>
15-22. september 2024

Bóka >>>
6-13 október 2024

Bóka >>>
Veldu dagsetningu, smellið á Bóka til að skoða verð og framboð…

Dagur-1

Koma til Massa Lubrense

Beint flug með Icelandair frá Keflavík til Rómar, brottför kl 8:30 og áætluð lending kl 15. Rúta bíður okkar á flugvellinum í Róm og ekur okkur til bæjarins Massa Lubrense (ca. 3,5 klst) á hótelið okkar Piccolo Paradiso, þar sem fer síðan fram úthlutun herbergja.

Dagur-2

Kynning á gönguferðum og ganga um sítrónuræktun

Við hittumst kl. 09.00 á hótelinu þar sem fram fer stutt kynning á ferðatilhögun og að því loknu hefjum við göngu um hlíðar Massa Lubrense. Við göngum meðfram blómlegum sítrónu og ólífuökrum en á þessu svæði er umfangsmikil ræktun. Á leiðinni stöldrum við við á nokkrum vel völdum útsýnisstöðum, þar sem horfa má yfir til Capri, Napólíflóa og Vesúvíus, en leið okkar liggur að þorpinu Schiazzano. Þar förum við í heimsókn til bónda og fáum að kitla bragðlaukana með ýmsu úr framleiðslunni hjá honum. Safaríkar sítrónur, ólívuolíur, brauðmeti, sultur, hunang og ostar sem öllu er skolað niður með heimagerðu víni. Að því loknu göngum við til baka og eigum frjálsan tíma sem t.d. er hægt að nýta í notalega stund á hótelinu, njóta sundlaugarinnar eða rölta um bæinn áður en við borðum kvöldmat á hótelinu.

Vegalengd göngu: 7.0 km
Áætluð tímalengd göngu: u.þ.b. 4 klst. (án viðkomustaða)
Hæðarmunur: ca 350m
Erfiðleikastig: Auðvelt (1 af 5)

Dagur-3

Stígur Guðanna

Við hittumst kl. 08.00 að loknum morgunverði fáum afhentan nestispakka fyrir daginn. Við förum með rútu til Agerola þar sem við hefjum gönguna á einum vinsælasta göngustíg Amalfi strandarinnar, Stíg Guðanna. Stígur Guðanna eða „Sentiero degli Dei“ er stórkostleg útsýnisgönguleið þar sem renna saman blámi himins og hafs. Við göngum gegnum dásamlegt landslag með fallegu útsýni yfir ströndina og hafið, eftir aldagömlum stígum umvöfðum Miðjarðarhafsgróðri. Á leiðinni fáum við sögur frá svæðinu í bland við stórkostlegt útsýnið og einstaklega skemmtilega gönguleið. Við göngum til þorpsins Nocelle en þar liggja um 1800 tröppur til að komast niður til Positano. Positano er eitt frægasta þorpið á Amalfi ströndinni og einna helst er það þekkt fyrir einstaklega fallegar strendur og pastellituðu húsin sem kúra utan í fjallshlíðunum. Þar verjum við tíma í bænum og á ströndinni áður en við verðum sóttl og okkur ekið aftur heim á hótel. Í þessari ferð er um að gera að taka með sundföt og handklæði og njóta þess að fara í sjóinn og baða sig eftir gönguna og líta við á einhverjum af veitingastöðunum við ströndina og næra bæði líkama og sál.

Vegalengd göngu: 9.0 km
Áætluð tímalengd göngu: u.þ.b. 5 klst. (án viðkomustaða)
Hæðarmunur um 100m upp og 660 niður
Erfiðleikastig: Miðlungs/erfitt (4 af 5)

Dagur-4

Leranto flói

Við hittumst á hótelinu kl. 08.30 eftir að hafa borðað morgunverð, tökum nestispakka fyrir daginn og förum síðan með rútu til þorpsins Nerano í Massa Lubrense, þaðan sem við hefjum göngu dagsins. Leranto eða „Baia di Ieranto“ er fallegur og friðsæll flói sem staðsettur er á Sorrentino skaganum. Staðurinn er einna helst þekktur fyrir kristaltært vatnið, gróskumikið umhverfi og óspillta strandlengjuna .Gangan í dag er um verndað svæði til lands og sjávar og ef aðstæður eru góðar er möguleiki á að synda í tærum sjónum. Við mælum eindregið með að hafa meðferðis handklæði og sundföt. Eftir notalega dvöl á þessu dásamlega svæði göngum við til baka til Nerano og rútan ekur okkur þaðan heim á hótel og við njótum þess sem eftir er dagsins til að rölta um bæinn eða slaka á við sundlaugina á hótelinu fram að kvöldverði.

Vegalengd göngu: 5.0 km
Áætluð tímalengd göngu: u.þ.b. 3 klst. (án viðkomustaða)
Hæðarmunur um 275 m
Erfiðleikastig: Miðlungs/erfitt (3 af 5)

Dagur-5

Frjáls dagur.

Í dag er frjáls dagur og tilvalið að njóta dagsins og fara t.d. til Sorrento. Þaðan er hægt að taka lest meðfram strandlengjunni í gegnum smábæi Amalfi strandarinnar og alla leið til Napolí. Til dæmis stoppar lestin beint fyrir utan Pompei þar sem hægt er að verja deginum í skoðunarferð.

Dagur-6

Monte San Michele – Toppurinn á Amalfi Ströndinni.

Við hittumst á hótelinu að loknum morgunverði og fáum nesti til dagsins og förum síðan með rútu til Monte Faito þar sem við hefjum gönguna á Monte San Michele, 1444 metrum yfir sjávarmáli. Monte San Michele er oft kallað „Molare“ en það nafn vísar til tannlaga útlit þess. Monte San Michele tilheyrir fjallgarði sem er hluti af Apennia fjöllum. Gangan í dag er töluvert krefjandi en ákaflega falleg og útsýnisleið. Leið okkar liggur um stórbrotið útsýnissvæði mitt á milli Napólíflóa og Salernoflóa þar sem við höfum 360° útsýni yfir svæðið í heild sinni. Í vestur sjáum við vel yfir ysta hluta Sorentoskagans. Napólí og Vesúvíus blasa við í austri og Napólíflóinn og eyjar hans í norður. Vert er að taka fram að þessi ganga getur verið krefjandi fyrir lofthrædda. Að lokinni göngu ekur rútan okkur heim á hótel þar sem gott er að slaka á og hvíla sig eftir dásamlega göngu, þar til kemur að kvöldverði.

Vegalengd göngu:10.0 km
Áætluð tímalengd göngu: u.þ.b. 4 klst. (án viðkomustaða)
Hæðarmunur um 450 m
Erfiðleikastig: Erfitt (5 af 5)

Dagur-7

Sorrentoskaginn og San Costanzo.

Við hittumst kl. 08.30 á hótelinu og tökum rútu til þorpsins Termini þaðan sem við hefjum gönguna til Monte San Costanzo. Við förum á mjög fallegan útsýnisstað sem kallast Vetavole þaðan sem við göngum niður fjallshrygginn alla leið til Punta Campanella, yst á Sorrentoskaganum. Útsýnið þennan dag er vægast sagt stórkostlegt, Capri blasir við okkur og við förum framhjá býlum og aldagömlum mannvirkjum. Ysti hluti Sorrento skagans er einstök upplifun og gönguleiðin ótrúlega falleg. Frá Punta Campanella göngum við upp gamlan múlasnastíg og stoppum í léttan hádegisverð á býli við Fossa di Papa sem býður upp á valda rétti af eigin framleiðslu. Bruschetta með heimaræktuðum tómötum, grænmeti og mozzarella, ommelettur með grænmeti, sætabrauð, vatn, vín og líkjör allt beint frá býli. Að loknum hádegisverði göngum við aftur til Termini og rútan fer með okkur heim á hótel þar sem við njótum þess sem eftir lifir dags og síðan kvöldverðar á hótelinu.

Vegalengd göngu:7.0 km
Áætluð tímalengd göngu: u.þ.b. 3,5 klst. (án viðkomustaða)
Hæðarmunur um 470 m

Dagur-8

Heimferð

Eftir morgunmat sækir rútan okkur og ekur á flugvöllinn í Róm fyrir heimflug til Keflavíkur. Áætluð brottför frá Róm er kl 16:00 og heimkoma kl 18:50

Upplýsingar

Innifalið

  • Beint flug fram og til baka með Icelandair
  • Flugvallargjöld og skattar ásamt ferðatösku og handfarangri
  • Rútuferð til og frá flugvelli á áfangastað
  • Standard hótelherbergi á 3* stjörnu hóteli –   Hótel Piccolo Paradiso
  • Fordrykkur í boði hótelsins
  • Hálft fæði (kvöld- og morgunmatur)
  • Matarupplifun og smakk í þeim göngum sem við á
  • Nestispakkar fyrir 3x dagsgöngur
  • Rúta til og frá hóteli í skoðunarferðir
  • Íslensk fararstjórn og leiðsögn með innlendum leiðsögumanni

Ekki innifalið

  • Drykkir á meðan dvöl stendur
  • Borgarskattur/þjórfé (Ef við á)
  • Önnur persónuleg þjónusta á meðan dvöl stendur

Athugið:
Dagskrá getur verið beytileg vegna utanaðkomandi áhrifa t.d. veðurfar. Ekki er dregið úr fjölda né gæðum upplifunar. Breytingar á dagskrá innifela ekki í sér endurgreiðslu eða afslátt á ferð. Við bókun skal taka fram hverskonar fæðuóþol eða ofnæmi þannig að sem best sé hægt að koma til móts við þarfir allra gesta.

Bókanir

Til að bóka ferð er valin dagsetning efst undir “Skoða framboð og bóka” við viðkomandi ferð.

Verð fyrir tvíbýli 299.000 ISK fyrir tvo fullorðna á mann.
Verð fyrir einbýli 329.000 ISK.
Staðfestingargjald greiðist við bókun og er 35.000kr.

Skilmálar

Greiðslu upplýsingar

  • Greiðsla fer fram um örugga greiðslugátt hjá Teya, kerfin eru samtengd og eru greiðslur skráðar sjálfkrafa inn á þína bókun.
  • Staðfestingargjald á ferð eru 35.000 ISK per mann sem greiðist við bókun og er óafturkræft.
  • Fullgreiða þarf ferð 85 dögum fyrir brottför, við sendum greiðslulink með vefpóst 85 dögum fyrir brottför.

Afbókanir

Ef afbókað er 6 vikum fyrir brottför, er pöntun felld niður. Ef afbókað er seinna eða ef ekki er mætt er engin endurgreiðsla.

Áfram Flakk áskilur sér rétt til að fella niður ferðir eða sameina ferðir ef lágmarksþátttaka næst ekki.

Myndir